Hraungata 15 – 19
Fjölbýlishúsin að Hraungötu 15 – 19 eru tveggja og þriggja hæða auk kjallara, í allt 28 íbúðir í alls þremur stigahúsum.
Í kjallara eru einkageymslur fyrir hverja íbúð og sameiginleg hjóla- og vagnageymsla. Húsið er staðsteypt.
Sérstakt loftræstikerfi er fyrir hverja íbúð á fyrstu og annarri hæð. Kerfið hefur loftskipti í íbúðinni með því að taka loft að utan og dæla því inn í vistarverurnar, herbergi og stofu, og soga lofti út úr baði, þvottahúsi og eldhúsi. Kerfið er með varmaendurvinnslu og nýtir við bestu aðstæður 80% af varmanum. Kerfið er með loftsíum og er allt loft sem kemur inn síað. Ekki á að vera þörf á að opna glugga í íbúðinni til loftunnar.
Skipulag Urriðaholts er fyrsta hverfið hér á landi til að hljóta vistvottun samkvæmt vottunarkerfi Breeam Communities. Í vottunarkerfi BREEAM er horft til fimm megin efnisflokka sem miða að því að meta og bæta sjálfbærni hverfisins.
Flokkarnir eru:
- Samráð og stjórnun
- Félagsleg og efnahagsleg velferð
- Auðlindir og orka
- Landnotkun og vistfræði
- Samgöngur og aðgengi
Fyrir íbúana þýðir það að gönguleiðir í skóla og leikskóla eru stuttar og öruggar, gert er ráð fyrir mismunandi ferðamátum og götur eru hafðar þröngar í þeim tilgangi að draga úr umferðarhraða. Stutt er í verslun og þjónustu, barnvæn leiksvæði og í óspillta náttúruna.
Fimm víra rafmagnskerfi dregur úr rafmengun m.a. með því að koma yfirtíðni, sem að straumbreytar og ljósdeyfar valda út úr húsum, niður í jörðina og koma um leið í veg fyrir svokallaða „flökkustrauma“. Ljósmengun er svo minni utandyra en það markmið næst með því að hafa þægilega lýsingu utan dyra. Á vetrarkvöldum fá því stjörnubjartar næturnar að njóta sín, sem er ekki algeng sjón í þéttbýli. Ofanvatnslausnir eru sjálfbærar og tryggja hringrás vatns í hverfinu svo lífríki raskist ekki.